Handan eldsneytis
Snemma á fyrsta áratug þessarar aldar hélt stórfyrirtækið Beyond Petroleum afdrifaríka fundi með auglýsingafyrirtækinu Ogilvy & Mather. Efni fundaraðarinnar var ný markaðsherferð fyrirtækisins. Ýmsar lausnir voru vafalítið reifaðar en að lokum setti Beyond Petroleum af stað herferð grundvallaða á hugtaki sem hafði verið að stinga upp kollinum hér og þar í samfélagsumræðunni en var enn sem komið var mjög lítt þekkt. Það var hugtakið kolefnisspor. Í auglýsingum fyrirtækisins voru einstaklingar hvattir til að skoða þann útblástur sem þeir báru ábyrgð á með hjálp reiknivélar fyrirtækisins og minnka hann svo, í takt við fyrirtækið sem ætlaði að draga úr útblæstri um 4 milljónir tonna kolefnisígilda.
Fyrirtækið Beyond Petroleum er ekki umhverfisverndarfyrirtæki eins og nafnið gefur til kynna heldur einn stærsti framleiðandi jarðefnaeldsneytis í heimi. Kolefnissporið var hluti af nýrri markaðsstefnu en fjórum árum áður hafði það einmitt breytt nafni sínu úr British Petroleum í Beyond Petroleum, handan eldsneytis. BP skildinum, vörumerki fyrirtækisins, var skipt út fyrir lógó sem minnir á túnfífil. Forstjóri fyrirtækisins talaði um endurmótun orkubransans í viðtölum, að orkubransinn þyrfti að komast handan jarðefnaeldsneytis. Fyrirtækið BP staðsetti sig með umhverfisvernd, túnfífillinn var framtíðin og framtíðin var handan eldsneytis. Íslendingar fóru heldur ekki varhluta af þessari grænþvottabylgju olíufyrirtækja. Olís, sem tengst hefur BP allt frá 1945 og selur í dag flugsteinolíu frá þeim, bjó til myndasöguna um ruslatunnuna Olla, sem vildi hafa hreint út um allt og í dag prýða tjaldútilegur og trjágróðursetning auglýsingar fyrirtækisins. Kolefnisjafnaðu eldsneytisviðskiptin er nýtt slagorð vinarins við veginn.
Umhverfissjónarmið réðu ekki för í þessari nýju umhverfisstefnu BP en það þótti vænlegt til vinnings að staðsetja sig í lið með ráðandi umræðu.
Í orði var Beyond Petroleum sem sagt kyndilberi umhverfisverndar en á borði voru þeir það svo sannarlega ekki. Fyrirtækið sem mælti með að við reiknuðum eigið kolefnisspor framleiðir í dag 3.8 milljónir tunna af jarðefnaeldsneyti daglega samanborið við 4 milljónir tunna á dag árið 2005. Árið 2006 olli olíuleiðsla í eigu fyrirtækisins einum stærsta olíuleka í sögu Alaska og 2010 varð sprenging í olíuborpallinum Deepwater Horizon sem olli stærsta olíusjávarleka í sögunni. Myndir af alelda hafi Mexíkóflóa bárust eins og eldur í sinu, eða, eldur í sjó, um allan heim. Ekki nóg með það heldur seldi þessi sjálftitlaði kyndilberi orkuskipta mikið af eignum sínum í vind- og sólarorku nokkrum árum síðar vegna þrýstings frá hluthöfum. 2019 keypti fyrirtækið nýjar gas- og olíulindir í Texas sem það lýsti sem stærsta feng framleiðslunnar í 20 ár. Fyrirtækið ræktar sem sagt gull en ekki græna skóga.
Áhrif kolefnissporsins
Herferð kolefnisfótsporsins var snilldarlegt útspil því hugmyndin um kolefnisspor einstaklingsins hafði varanleg áhrif á það hvernig við hugsum um loftslagsaðgerðir. Skyndilega var hægt að reikna hversu miklum útblæstri fólk ylli með ferðalögum sínum, búðarferðum og annarri neyslu. Orð ársins 2006 hjá Oxford háskóla var kolefnishlutleysi, carbon neutral. Svona lýsti Oxford háskóli hugtakinu:
Að vera kolefnishlutlaus felur í sér að reikna eigin útblástur, minnka hann þar sem mögulegt er og jafna út þann sem eftir verður, með kolefnisjöfnunarúrræðum, trjáplöntun eða fjárfestingum í grænum geirum eins og vind- eða sólarorku.
Að reikna eigin útblástur, draga úr honum og jafna rest. Líkt og með herferðir tóbaksframleiðenda forðum, þá færði kolefnissporsherferð BP ekki fyrirtækið handan eldsneytis, heldur ábyrgðina á útblæstri handan fyrirtækjanna, og yfir á einstaklinginn. Boðskapurinn? Það er ekki sá sem selur eldsneytið sem ber ábyrgð, heldur sá sem kaupir það. Ekki flugfélögin heldur farþeginn. Rétt eins og vopnaframleiðendur eru firrtir ábyrgð á vopnuðum átökum og tóbaksframleiðendur bera enga ábyrgð á reykingum. Það er neytandinn sem stjórnar ferðinni í hamfarahlýnun heimsins.
Hvort kom á undan, hænan eða veskið?
Því er haldið fram að okkar sterkasta rödd sé í gegnum veskið. Sannarlega er neysla val og ákveðin rödd, en neysla sendir líka óskýr skilaboð, sýnir bara aðra hlið peningsins. Neytendur vilja borða gómsæta hamborgara og ferðast til framandi landa en það er ekki vilji neytenda að óhollusta sé hagkvæmari hollustu og það er ekki vilji almennings að nýta mengandi orkugjafa fram yfir endurnýjanlega. Hvað á að kaupa til þess að auka framboð á loftslagsaðgerðum ríkisins? Hvaða útsölur getum við sótt til að auka eftirspurn eftir minna framboði?
Það er á ábyrgð valdhafa; fyrirtækja, fjármagnseigenda og löggjafa, að gera grænt líf hagkvæmara fyrir einstaklinginn, en ekki á ábyrgð einstaklingsins að gera græna framleiðslu hagkvæmari fyrir fyrirtæki. Hegðun neytandans stjórnar nefnilega ekki framleiðanda í ráðandi stöðu, rétt eins og sund fiska ákvarðar ekki hvert fljótið rennur.
Ef valdhafa vantar skýrari skilaboð heldur en þau sem fást í gegnum kreditkortaveltu, þá geta þeir hlustað á þau óteljandi mótmæli, verkföll, kröfugöngur, greinar og ræður sem krefjast tafarlausra og róttækra breytinga. Þeir geta hlustað á alvöru raddir í stað þess að ráða í dulmál veskisins.
Ringlað samfélag – samviskubit og kvíði
Beyond Petroleum vissi að það var einstaklingnum ómögulegt að ná kolefnishlutleysi upp á eigin spýtur, en létu hann samt axla ábyrgð loftslagsbreytinga.
Niðurstaðan er ringlað samfélag. Mengandi kostir eru hagkvæmastir og fyrirtæki í mengandi geirum græða á tá og fingri. En samt eru skilaboðin í samfélaginu þau að við almenningur skiptum öllu máli. Sumir reyna að minnka kolefnisspor sitt eftir fremsta megni á meðan aðrir gera það ekki. Þeir í fyrri hópnum agnúast út í þá í seinni og segja að án þess að öll leggi sitt á vogarskálarnar muni ekkert gerast (sem er satt) og þeir í seinni hópnum svara á móti að það hvernig við högum okkar eigin neyslu muni lítil áhrif hafa (sem er líka satt). Fólk þjáist af loftslagskvíða vitandi að það er þeirra að breyta samfélaginu en veit ekki hvað hægt er að gera betur. Börn þjást af samviskubiti vegna þess að foreldrar þeirra notuðu einnota bleiur. Hvert er kolefnisspor ykkar, kæru börn? Hvað hefðuð þið átt að gera til þess að skemma ekki heiminn?
Fólk flokkar og 1500 tonn af íslensku plasti finnast óendurunnin í vöruhúsi í Svíþjóð. Fólk dregur úr kjötneyslu og fjöllin af sláturafurðum eru urðuð. Fólk fer ekki til útlanda og tómar vélar fljúga milli flugvalla Evrópu til þess að halda flugtaks- og lendingarrétti sínum. Hvers vegna breytist ekkert?
Stuðningur við mengunargeirann
Samkvæmt rannsókn frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum hlaut jarðefnaeldsneytisgeirinn árið 2020 styrki, skattaafslætti og afskriftir vegna umhverfistjóns upp á 5.9 billjónir dollara. 740 milljón milljónir króna eða tæp 7 prósent vergrar heimsframleiðslu. Það eru svo háar upphæðir að erfitt er að gera sér þær í hugarlund. 740 billjónir árlega jafngilda um 1400 milljónum króna á hverri mínútu eða tæpum hundraðþúsundkalli á hvert mannsbarn árlega. Til samanburðar gera Sameinuðu Þjóðirnar ráð fyrir að iðnríkin þyrftu um 140-300 milljarða dollara græna fjárfestingu árlega fyrir aðlögun að grænum umskiptum. Það er gífurlega mikið en bliknar í samanburði við 5.9 billjónir dollara jarðefnaeldsneytisgeirans. Fyrir skömmu tilkynnti franska jarðefnaeldsneytisfyrirtækið TotalEnergies hagnað upp á um 15 milljarða evra, sem er mesti hagnaður í sögu franskra fyrirtækja, og það í miðri orku- og umhverfiskrísu.
Það er ekki ósk neytandans að mengunargeirinn hljóti þessa forgjöf. Valdhafar hafa búið svo um, með fjárfestingum, reglugerðum og innviðauppbyggingu sem hyglir jarðefnaeldsneyti. Þess vegna er jarðefnaeldsneyti á heimsvísu einfaldlega hagkvæmara fyrir almenning heldur en aðrir orkugjafar.
Loftslagsaðgerðir einstaklingsins og valdhafar
Hægt er að flokka loftslagsaðgerðir einstaklingsins í fernt. Í fyrsta lagi eru það persónulegar breytingar á lífsstíl, í öðru lagi áhrif sem þú hefur á lífsstíl fjölskyldu og vina, í þriðja lagi framtök og úrræði í nærsamfélagi og vinnustað og í fjórða lagi pólitísk þátttaka. Hvað almennar aðgerðir varðar er hægt að skoða þær út frá tveimur sjónarhornum. Í fyrsta lagi ættu loftslagsaðgerðir alltaf að taka mið af Réttlátum umskiptum, það er, að þeir sem eru verst staddir eiga ekki að bera þungan af aðgerðum og í öðru lagi eiga almenningur og stjórnvöld að krefjast þess að helstu gerendur loftslagsbreytinga axli ábyrgð á gjörðum sínum en velti henni ekki yfir á aðra.
Kolefnisspor er mikilvægt mælitæki. Það mælir útblástur gróðurhúsalofttegunda og er besti mælikvarðinn sem við höfum á árangur okkar í loftslagsaðgerðum og gefur til kynna hvar skjótra breytinga er þörf. Hins vegar hefur áherslan á kolefnisspor einstaklingsins beint athyglinni frá þeim sem mesta ábyrgð bera á loftslagsbreytingum.
Markaðsherferð kolefnisspors Beyond Petroleum ýtti undir hugmyndafræði þar sem persónulegar lífsstílsbreytingar, án kerfisbreytinga, voru í algjöru aðalhlutverki. Einstaklingurinn var krafinn um að einblína á flísina í eigin auga í stað bjálkans í auga ábyrgðaraðila. Herferðin hitti í mark því hún innihélt hluta sannleikans. Einstaklingsframtakið ER nauðsynlegt grænum umskiptum. Gildi, lífsstíll og neysluvenjur þurfa að breytast, en við þurfum loftslagsaðgerðir á öllum sviðum mannlífsins. Allt frá úrræðum einstaklinga, smærri samtaka og fyrirtækja til aðgerða á heimsskala.
Einstaklingurinn þarf að skoða eigin gjörðir en hann á ekki að axla ábyrgð á hamfarahlýnun, því hana eiga valdhafar skuldlaust; fyrirtæki, fjármagnseigendur og löggjafinn. Það er valdhafanna að leiða grænu umskiptin svo við eygjum raunverulegan möguleika á að skapa tilveru handan eldsneytis.