Innblástur

Innblástur. Gull þeirra sem skapa. Heilastuðtæki. Ósnertanlegur, dularfullur og dýrmætur kraftur. Að fyllast innblæstri er eins og að finna fimmþúsundkall í vasanum. Að vinna í lottói sem þú tókst ekki þátt í. Eða kannski er hann fræ í skítugum lófa sem hægt er að hlúa að svo úr verði skógur. 

Það er ábyggilega hægt að finna milljón myndlíkingar um innblástur, orðið sjálft er meira að segja ein slík, sem gefur til kynna að fyrirbærið sé eitthvað sem er utan við okkur og læðir sér inn í lungun. Kannski óreglulegir loftstraumar af hugmyndum sem hægt er að anda að sér af tilviljun.

Við listafólk lifum í samlífi við innblástur. Eins og sveppir og þörungar í fléttum, getum við ekki án hins verið. Listafólk býr til strúktúr fyrir innblásturinn, eins og sveppur. Bækur, myndir, hönnun eða hvað annað form, og innblásturinn útvegar næringu, eins og þörungurinn. Hugmyndir, myndir í huga, lítil leiftur sem gera listafólki kleift að halda áfram störfum sínum og er mótefni gegn loddaralíðan. 

Innblástur er þó ekki hægt að panta og er það eilíf áskorun að búa svo um að hægt sé að fyllast sem oftast innblæstri. Í leit minni að fyrirbærinu hef ég komist að ýmsu og langar mig að deila með ykkur heiðarlegri tilraun til að henda reiður á þetta skapandi afl. Í grundvallaratriðum flokka ég innblástur í tvo flokka:

Innblástur sem kemur í vinnu og

innblástur utan vinnu

Innblástur í vinnu er auðvelt að skilgreina og slíkur innblástur er mikilvægastur, þar sem við höfum einhverja stjórn á honum. Ég sest niður og hefst handa við verkefni, eins og þennan pistil til dæmis, og á meðan vinnunni stendur þá spretta upp hugmyndir og pælingar sem ég skrifa niður á blað. Úr einni hugmynd sprettur önnur og svo framvegis. Við þetta nota ég ýmis tól, blöð og penna, skissubækur, hugarkort, tölvur og ritvinnsluforrit. Þennan innblástur leita ég uppi og haga seglunum eftir vindi. Dugnaður, iðni og agi, alvöru vinna. Mæta í vinnuna á morgnana, skapa og móta eins og námuverkamaður vinnur málma úr jörð. En ef agi væri eina forsenda listafólks fyrir frumsköpun væri greinin allt önnur og steríótýpan af hinum lata listamanni ekki til. Því stundum lægir innblásturinn í vinnu og við dúum föst á haffletinum í skapandi logni. Sama hvernig við högum seglunum þá færumst við ekki úr stað. Við skrifum og skrifum og skissum og skissum, en ekkert gerist. 

Þá þarf að leita annað, eða, hætta að leita.

Ef ég man rétt heyrði ég einhverntímann Guðrúnu Evu Mínervudóttur tala um að hún væri byrjuð að skrifa minna til þess að skrifa meira. Það var skrítin þversögn. Eitthvað kviknaði, ég fann kitl í lungunum og það kom upp mynd í hugann. Varð fyrir innblæstri. Ég ímyndaði mér listafólk eins og fýsibelg. Sem dregur inn loft og blæs því á glóðir, kyndir í báli. Vinnan er útblástur belgsins og þegar hann tæmist, þarf innblástur til að fylla hann á ný. En hvernig?

Mín tilgáta er að besta ástandið til þess að verða innblásinn sé í ró. Að vera að vinna, jafnt og þétt, en fara alltaf í ró þegar á þarf. Þá opnast lungun. Í ró kviknar athygli og forvitni. Í ró fær hugurinn að reika. Úti að skokka, í strætó, hlustandi á tónlist, lesandi bók, á spjalli við vini, á leiksýningu, í bíói, á tónleikum eða einfaldlega horfandi út í loftið. Í leti. Lati listamaðurinn. Í ró þenst hugurinn smátt og smátt út. Verður eins og innblásinn fýsibelgur.