Tími, stærð og umfangsdeyfð

Fölblár depill

Árið 1977 var könnunarhnetti skotið út í geim frá jörðinni. Hnötturinn bar nafnið Voyager og var ætlað að safna gögnum um Júpíter og senda aftur til jarðar. Þessu litla ómannaða geimfari var ekki ætlað að snúa til baka heldur halda áfram bréfasendingum á ferð sinni um geiminn svo lengi sem það gæti, þar til einhvern tímann, eftir hundruð, þúsundir eða milljónir ára, að það lendir í árekstri eða finnst. Á farinu er gullplata, sem inniheldur myndir og hljóð úr samfélagi manna, leiðbeiningar til að búa til tæki til að spila hljóðin auk staðsetningar jarðarinnar, ef svo ólíklega vildi til að könnunarhnötturinn kæmist í kynni við önnur samfélög, einhvers staðar úti í hinum óendanlega geimi.

            Voyager sinnti verkefni sínu af stakri prýði. Farið sendi geimvísindafólki mikilvæg gögn um Júpíter og sólkerfið okkar, og sinnir því enn þann dag í dag. Nú er könnunarfarið komið út úr sólkerfinu en þegar það var enn í nágrenni okkar birtust reglulega myndir frá því í dagblöðum um heim allan, nærmyndir af plánetunum, fallegar myndir úr sólkerfinu. En sú mynd sem valdið hefur mestum hughrifum hjá fólki er mynd sem geimfarið tók þrettán árum eftir geimskotið, 6,4 milljarða kílómetra í burtu. Á myndinni sjást ljósrákir. Dreifðir ljósgeislar sólarinnar lita lóðréttar rendur í mynd af svörtum, tómum geimnum. Innan í einni þessara randa er lítill fölblár depill, eins og rispa á filmunni. Það er þessi tíundi hluti pixils sem setur allt í einhvers konar samhengi. 6,4 milljarða kílómetra í burtu sneri Voyager sér við í síðasta skipti og beindi sjónum sínum aftur heim. Myndin er af jörðinni, heimili okkar, ekki nema lítill fölblár depill í óravíddum alheimsins.

 

Samhengið stóra og smáa

            Samhengið er að við skynjum ekki samhengið. Jörðin, með öllum sínum löndum, höfum og himnum, þessi óendanlega stóra pláneta, á þessari mynd svo óendanlega smá. Tími okkar hér ekki nema tif í jarðklukkunni. Stærðir og tími. Myndin frá Voyager veldur þverstæðukenndum hughrifum. Samtímis verður tilvera okkar sérstaklega ómerkileg og einstaklega dýrmæt. Hvert augnablik lítið og stórt. Tilgangsleysi og tilgangur spenna greipar. Faðmlag, bros, ristað brauð. Fádæma mikilvægar merkingarleysur.

            Þessari pistlaröð er ætlað að fjalla um loftslagsbreytingar, og mér fannst við hæfi að byrja hugleiðingar mínar á þessum þverstæðum stærðar og tíma í ljósi þess að loftslagsbreytingar hafa meiri áhrif og afleiðingar í samhengi jarðarinnar en nokkuð annað sem mannkyn hefur reynt.

            Loftslagsbreytingar gerast á ótrúlega skömmum jarðsögulegum tíma og munu hafa áhrif af ótrúlegri stærðargráðu á ótrúlegar tímalengdir. Vegna stærðar loftslagsbreytinga og umfangs aðgerða sem þær krefjast er erfitt að leiða hugann að þeim. Því spyr ég: getum við sem einstaklingar náð utan um loftslagsbreytingar? Þurfum við þess?

 

Tími og Tralfamador

            Við eigum í vanda með að skynja tíma eftir ákveðna lengd. Við getum auðveldlega skilið sólarhring, getum náð utan um viku og mánuði að einhverju leyti og hugsum stærra samhengið í fríum, misserum, árum, skólagöngu, störfum, barneignum. Við getum talað um áratugi en eigum erfitt með að sjá þá fyrir okkur, við tölum og skrifum um aldir og árþúsund en getum illa gert okkur grein fyrir tímanum, tugir árþúsunda, hundrað þúsund ár, milljón ár. Við höfum ekki hugmynd um hvað það er. Í þróunarlegu samhengi þurfti maðurinn aldrei að hugsa lengra fram í tímann en nokkur ár. Okkur er  ekki eðlislægt að gera það. Byggðir rísa í hlíðum virkra eldfjalla. Sjáið bara Vík í Mýrdal. Nútíð trompar framtíð.  

            Miðað við alla vitneskju um loftslagsbreytingar og litlar aðgerðir þá er eins og framtíðin hverfi í þoku fjarlægðar. Eins og valdhafar þessarar jarðar geri ekki ráð fyrir að maðurinn lifi nema nokkur hundruð ár í viðbót. En hvers vegna ekki að gera ráð fyrir tíu þúsund árum í viðbót? Hundrað þúsund eða milljónum ára í viðbót af samfélagi manna í sjálfbærri sátt við jörðina? Myndum við breyta öðru vísi ef við hefðum eðli til að sjá lengra fram í tímann? Eða værum við eins og geimverurnar frá Tralfamador í bókinni Sláturhús 5 eftir Kurt Vonnegut? Tralfamadorarnir upplifa alla sína tilveru samtímis en ekki línulega. Þar af leiðandi vita þeir að eyðilegging alheimsins verður af eigin höndum. Endalok alheimsins verða í tilraunaflugferð með nýtt eldsneyti, þegar Tralfamadori ýtir á start-hnappinn. Vitandi það koma þeir ekki í veg fyrir tilraunina. Ef við sæjum framtíðina skýrt, með öllum sínum hamförum af mannavöldum, myndum við bregðast við eða myndum við láta örlögin rætast án þess að hreyfa mótbárum?

 

Stærð og umfangsdeyfð

            Sömuleiðis eigum við erfitt með að ná utanum stærðir. Hundrað krónur, þúsundkallar, tíuþúsundkallar og hundraðþúsund. Þetta get ég vel gert mér í hugarlund. Milljón, tvær milljónir, þrjár. Skilningurinn brenglast en ég kemst þangað í huganum. 50 milljónir, hundrað milljónir. Þá fara tölurnar að missa merkingu sína. Sex milljarðar í arð? Það eru þúsund ár á meðallaunum. 740 þúsund milljarðar? Merkingarleysa.

            Metrar, kílómetrar. Fjarlægðir sem ég get gengið get ég ímyndað mér. Tuttugu kílómetrar er góð dagleið. Þúsund kílómetra get ég keyrt á einum degi. Fjarlægðarskynið brenglast með farartækinu. Ég opna google maps í símanum og zooma út þar til ég hef allan heiminn í lófanum. Ég snerti Japan með vísifingri og Madagaskar með þumlinum. Auðskiljanlegt, en líka blekkjandi. 

            Á korti er Vatnajökull hvít bót á landinu, ekki nema rúm sjö prósent landsins. Í reynd er jökullinn svo mikill að væri honum smurt jafnt yfir allt landið myndaði hann þrjátíu metra þykkt íslag. Eins og Skuggahverfi af ís yfir allt Ísland. Ímyndið ykkur að keyra hringveginn undir jafnri tíu hæða ísbreiðu. Á næstu hundruðum ára hverfur jökullinn, jökull af stærðargráðu sem við höldum að við skiljum en er óskiljanlega mikill, á of löngum tíma sem er alltof skammur.

            Það er eins og við höfum ákveðið róf skynjunar á stærð og tíma. Ef eitthvað lendir utan þess rófs, til dæmis tíu terakrónur eða fimm kílóár, þá er eins og veruleikinn sem þessar mælieiningar standa fyrir, hverfi í tölfræðilega þoku. Þessu er kannski hægt að lýsa sem umfangsdeyfð. Til er hrottaleg tilvitnun sem lýsir þessari aftengingu við stærðir. Hún er einhvern veginn svona:

 

Morð er hryllilegur glæpur, þjóðarmorð tölfræði.

 

Hægt væri að bæta við: og sjötta útrýmingin neðanmálsgrein.

 

En þrátt fyrir að þessar stærðir séu handan skilnings okkar sem einstaklinga þurfum við að geta skilgreint þær og mælt. Tera, gíga, peta. Ártöl og tímaásar. Vísindafólk safnar gögnum, reiknar stærðir og í samstarfi sín á milli hefur það púslað saman heimsmynd af hlýnandi heimi. Sem einstaklingar skiljum við ekki, en við höfum búið til kerfi vísinda sem skilur og færir okkur óyggjandi niðurstöður ásamt lausnum. Það þarf að bregðast við og við höfum aðgerðaáætlun.

 

Snertanlegur tími

Í bók sinni Um tímann og vatnið stingur Andri Snær Magnason upp á að við hugsum um tímann í ást. Hann talar um snertanlegan tíma. Hversu lengi lifir einhver sem þú elskar? Stelpa sem fæðist árið 2022 gæti haldið á nýfæddu langömmubarni árið 2106. Ef það barn verður níutíu og fjögurra ára, nær stúlkan frá árinu í ár að klukka árið 2200 í gegnum ást á langömmubarninu. 2200. Fyrir þessum afkomanda, og afkomendum þess afkomanda, er árið 2050 óskýr fortíð, skip handan sjóndeildarhringsins. En það er samt ártalið sem skilningskerfi vísindafólks hefur úthlutað okkur sem úrslitaártal fyrir alla framtíð. Tíminn óendanlegi er naumur.

 

Heimilið okkar eina

 

Við mannfólkið eigum til að ofmeta hverju við fáum áorkað á einu ári og vanmeta hverju við fáum framgengt á tíu.

-úr bókinni Surviving the climate crisis

 

Sem einstaklingar getum við skynjað loftslagsaðgerðir eins og við skynjum jörðina á myndinni frá könnunarhnettinum Voyager. Allar gjörðir okkar svo óendanlega ómerkilegar í hinu stóra samhengi en á sama tíma einstaklega mikilvægar og dýrmætar. Eins og eilíft augnablik. Um myndina frá Voyager hafði Carl Sagan, einn vísindamannanna sem stóð fyrir geimskotinu, þetta að að segja:

 

Líklega er ekki til skýrari vitnisburður um hégóma mannsins en þessi mynd af okkar litla heimi. Fyrir mér undirstrikar myndin skylduna sem okkur ber, að sýna hvert öðru meiri gæsku, að varðveita af umhyggju þennan fölbláa depil, heimilið okkar eina.

 

Í þessum pistli spurði ég hvort við gætum náð utan um loftslagsbreytingar og hvort við þyrftum þess. Ég held að svarið við báðum spurningum sé nei. Sem einstaklingar getum við ekki náð utan um loftslagsbreytingar en við búum yfir kerfum skilnings sem geta það og það sem við þurfum að gera er að sýna hvert öðru meiri gæsku. Vinum, ókunnugum, dýrum, náttúru. Gæsku sem er ekki óvirk heldur virk, beinskeytt og gefandi og felst í skarpri kúvendingu á hegðun okkar og háttum, frá kerfi hugsunarlausrar ofnýtingar yfir í kerfi sem hefur varðveislu og umhyggju að leiðarljósi. Fyrir jörðina, heimilið okkar eina.