Inngangur
Á hverju ári verður mikið fjaðrafok þegar ljóst er hverjir fá listamannalaun. Annarsvegar eru þeir sem finnst of lítið í lagt og vilja stækka launasjóðinn og hinsvegar þeir sem af mikilli ástríðu vilja láta leggja hann niður. Þessi umræða velkist um í kommentakerfunum í nokkra daga og er tilefni þessa pistils. Hér leiði ég hugann að því hvers vegna listamannalaun eru svona umdeild og hvernig við hugsum um list.
Praktík
Hvað er listaverk? Yfirleitt er hugsað um list sem vöru, til dæmis plötu, málverk eða bók, og er það eitt helsta þrætueplið. Ef listafólk er framleiðendi á vöru, eins og hver annar framleiðandi, af hverju þarf það þá launagreiðslur frá ríkinu? Er það ekki ósanngjarnt gagnvart öðrum framleiðendum?
Kannski, ef list væri í eðli sínu eins og epli, blýantur, hrærivél eða húðkrem. En list er engin venjuleg vara. Markmið listar er að fá huga til þess að dvelja í sér og þannig hræra upp hugmyndum, hugartengslum og tilfinningum. Svo geta þeir hugar deilt upplifuninni sín á milli og slík deiling myndar tengsl, myndar samfélag. Sem dæmi er markmið þjóðsöngsins ekki að æfa raddir þeirra sem syngja, heldur að binda þjóðina saman, með tilfinningaböndum.
Gildi listaverka felst nefnilega ekki í notagildi þeirra heldur viðbrögðum þess sem nýtur. Þess vegna er ómögulegt að verðleggja listaverk eftir raunverulegu gildi þeirra. Hvernig er hægt að verðleggja ljóð sem fær einn til að bresta í grát, en annan til þess að ranghvolfa augunum, eða plötu sem einn tengir við fyrsta kossinn en annar við fulla frændann? Kannski eru listamannalaun svona umdeilanleg einmitt vegna óeðlilegs eðlis vörunnar. Fyrir sumum eru listaverkin sem hljóta styrkinn verðlaus, en fyrir öðrum ómetanleg.
List er ekki praktísk, ekki vitund. Hún er ekki hrærivél eða húðkrem, sem þeytir rjómann þinn eða linar kláða. En list fær þá sem kjósa að dvelja aftur á móti til að opna hugann fyrir nýjum hugmyndum og finna og hugsa um það sem við erum löngu búin að ákveða að sé það sem mestu máli skiptir. Gleði, samkennd, ást og hlátur, svo eitthvað sé nefnt. Það er ekkert praktískt við vöru sem orsakar hlátrasköll og grætir, eða hvað? Hjálpar slík vara kannski fjölskyldum að dafna, vinum að tengjast? Er list krem á sálina? Þeytir hún rjóma lífsins?
Hagkerfi innblásturs
Allir njóta listar, það er óumdeilanlegt, allir njóta listar. Gerðu þér í hugarlund lögin sem þú syngur í útilegunni, ljóðin sem lesin eru í jarðarför ættingja, bíómyndin sem þú horfir á eða tónlistin sem þú hlustar á þegar þú eldar. Ef þú nýtur listar á einhvern hátt, þá gagnast styrkjakerfi listar þér. Rétt eins og ef þú borðar mat, þá gagnast styrkir til bænda þér eða ef þú ferðast á milli staða þá gagnast vegakerfið þér. Semsagt, ef þú vilt lifa, og það í samfélagi, þá eru allskonar styrkir og kerfi sem virka sem stoðir þess samfélags.
Jú, þig langar kannski ekkert að kaupa nýja bók eftir Höfundinn, en kannski hlustarðu á uppáhalds plötuna þína í traffíkinni á Miklubrautinni, og kannski er sú innblásin af bókum Höfundarins. Það þarf ekki að njóta listar alls listafólks sem fær styrkinn til þess að réttlæta hann, rétt eins og þú þarft ekki að borða gúrkur frá öllum bændum þjóðarinnar eða keyra eftir öllum götum landsins.
List þrífst best í samfélagi þar sem mikið er um list. List getur af sér list í einskonar jákvæðu svörunarkerfi, eitthvað sem ég kýs að kalla hagkerfi innblásturs. Ef það er mikið um leikhús í bænum, eða skólanum þínum, þá verður til meira leikhús. Ef tónleikar eru á hverju strái, þá verða fleiri tónleikar, fleiri bílskúrsbönd. Bækur geta af sér bækur, hönnun hönnun og myndlist myndlist. En list veit heldur engin landamæri. Myndlist sækir innblástur í tónlist, tónlist í bækur, bækur í leikhús, leikhús í myndlist. Þvert á greinar, í hringi, kriss kross. List getur af sér list, því meira, því betra. Hagkerfi innblásturs á Íslandi veltir miklum hugsunum og tilfinningum og listamannalaun eru mikilvægur stuðningur við það hagkerfi.
Vissulega væri list til þó ekki væri fyrir styrkjakerfið okkar, en hún væri minni í sniðum, einsleitari og óaðgengilegri. Veltan myndi minnka og hagkerfi innblásturs dragast saman. Styrkjakerfið er ekki fullkomið, (og hefur margt og mikið verið skrifað um það) en það veitir þó tækifæri til listsköpunar þeim sem ekki hafa tök á því að vinna launalaust að nýju verki, sem aftur stækkar Hagkerfi innblásturs.
Kannski er list umdeild vegna þess að hún er deiling á hugarástandi. Hún hefur áhrif á hugsanir og stjórnar tilfinningum. Fólk er vandlátt á það sem hugur þeirra tekur fyrir, eðlilega. Auðvitað hefur fólk skoðanir á því hvaða einstaklingar eiga að fá að hafa áhrif á huga þess. En í jafn stórum hópi og Ísland er er ómögulegt að búa til lista af styrkþegum sem öllum hugnast þegar um er að ræða jafn huglægt mat og mat á verðandi listaverkum. Mat á framtíðarafurðum þess listafólks sem styrkinn hljóta. Framtíðarvörum sem eru svona eðlisfurðulegar.
En hvað ef list er einfaldlega ekki vara?
Innviðir hugans
Algengasti samanburður stuðningsmanna launasjóðs listamanna er að bera listamannalaun saman við styrki til bænda. Báðar eru starfsgreinar sem við sem samfélag berum virðingu fyrir. Við viljum ekki hætta að framleiða mat, og við viljum ekki hætta að skapa list. Eins og ég kom að áður er mikill eðlismunur á tómati og bók. Tómaturinn er matur og hann er einfalt að verðleggja á meðan bókin er miklu óræðari. Jú, hún er bunki af blöðum, en það er samt ekki það sem bókin er. Vegna þess hve skrítnar vörur listaverk eru vil ég skoða annan samanburð og velta upp þeirri hugmynd að list sé alls ekki vara, heldur innviðir.
Innviðir eru samkvæmt orðabókarskilgreiningu „helstu þættir samfélagsins, t.d. samgöngu-, mennta- og heilbrigðiskerfi“ og ég ætla að nýta mér samanburð við vegakerfið. Öll erum við sammála um að við þurfum að komast leiðar okkar, alveg eins og öll erum við sammála um að við viljum njóta listar. Við þurfum ekki að nýta nema brotabrot þessa vegakerfis. Þá helst vegi til og úr vinnu, í búðina, til vina og fjölskyldu. Einstöku sinnum út á land eða einstöku sinnum í bæinn. Vegir eru grunninviðir samfélags okkar.
En hvað ef þessi vegir væru vara? Hvað ef verktakar þyrftu að framleiða vegi af sínu frumkvæði og rukka svo þá sem ferðast eftir þeim um afnot. Hvað ef ríkið og sveitarfélög myndu skrúfa fyrir öll fjárframlög til vegakerfisins vegna þess að verktakar í vegavinnu ættu að geta lifað af vegum sínum. Maður gerir sér í hugarlund að það væri mikil gróska í vegavinnu á vinsælum stöðum, það væri vissulega hægt að lifa af Miklubrautinni, en vegir á fáfarnari stöðum yrðu að vera byggðir í sjálfboðastarfi af þeim fáu sem nýttu sér þá. Smám saman myndu þeir sjálfboðaliðar gefast upp, flytja eitthvert annað og vegakerfið minnka. Smám saman yrði vegakerfið nokkrar stórar umferðaræðar og fáfarnari dvalarstaðir yrðu óaðgengilegir. Á sama hátt, ef listamannalaun yrðu lögð af myndu ferðalög okkar innan hugans hægt og bítandi takmarkast við vinsælustu dvalarstaðina.
Áfangastaðir hugans
Samanburður við vegakerfið virðist langsóttur en er ekki galinn, listaverk er ekki skrautmunur fyrir heimilið heldur áfangastaður hugans. Þú tekur upp bók, setjur plötu á fóninn, tapar augunum í myndlist eða sest í fimmtu röð í leikhús. Í afmarkaðan tíma ferðastu á annan stað í huganum, kannski á stað sem þú vissir ekki að væri til, kannski eitthvert sem þú hefur alltaf gaman af að endurheimsækja eða þangað sem þú vildir að þú hefðir aldrei komið, allt innan eigin huga. Líkt og með áfangastaði í raunheimum þá eru sumir eftirminnilegir, aðrir valda vonbrigðum og enn aðrir sem lifa með okkur ævilangt, verða hluti af okkur. Listaverkið, bókin, platan, myndin, er ekki staðurinn sjálfur heldur innviðir til þess að hugurinn komist leiðar sinnar.
Í litla samfélagi Íslands er vissulega útvalið listafólk sem getur lifað af list sinni en það gerir ekki öll hin sem ekki geta það að óþarfa. Meiri list eykur hagvöxt í hagkerfi innblásturs sem getur af sér nýjar hugmyndir og nýja áfangastaði. Rétt eins og við viljum geta ferðast um króka og kima Íslands þá viljum við geta ferðast um alla áfangastaði hugans. Rétt eins og við þurfum vegi, sem eru forsenda ferðaþjónustu, borga og bæja þurfum við list, innviði hugans sem þjónusta það sem skiptir okkur máli. Gleði, samkennd, ást og hlátur, svo eitthvað sé nefnt.