Fórnir og framfarir

Herra Creosote

 

Inn á fínan veitingastaðinn kjagar hinn akfeiti herra Creosote. Hann á frátekið borð og biður franskan yfirþjóninn um fötu, hann þarf að æla. Hlaupadrengur kemur með fötu og herra Creosote hefst handa við að kasta upp. Yfirþjónninn afsakar þjónustu staðarins í bak og fyrir á meðan herra Creosote ælir og ælir. Gestir staðarins fitja upp á nefið en segja ekkert, passa upp á mannasiðina. Yfirþjónninn útskýrir stóran og glæsilegan matseðilinn í miklum smáatriðum. „I‘ll have the lot“ segir herra Creosote. „A wise choice“ svarar þjónninn og kallar á ræstitækni sem hreinsar óþrifnaðinn á sama tíma og herra Creosote gubbar yfir bak hennar þar sem hún krýpur á gólfinu.

Eftir öll herlegheitin eru diskar, flöskur og gubb út um allt. Yfirþjónninn færir herra Creosote síðasta réttinn, örþunna súkkulaðimyntu, „A wafer thin mint“ sem reynist kornið sem fyllir mælinn. Herra Creosote springur.

 

Sketsinn um herra Creosote sem finna má í kvikmyndinni The meaning of life eftir breska grínflokkinn Monty Python er eins og grótesk myndlíking fyrir línulegt hagkerfi nútímans. Hagkerfi sem offramleiðir og hendir rétt eins og herra Creosote borðar og ælir. Hagkerfi sem gerir ráð fyrir óendanlegum vexti á takmarkandi plánetu, eins og herra Creosote gerir ráð fyrir óendanlegu áti í endanlegum líkama. Gestir staðarins eru almenningur og stjórnvöld eru eins og yfirþjónninn, sem gætir sín að hafa kurteisi í hávegum á meðan hann þjónar herranum í stað þess að reka hann á dyr. Hvenær fær samfélag dagsins í dag þessa síðustu wafer thin mint sem sprengir okkur? Herra Creosote hefði ekki nægt að fara í tímabundið átak, heldur þurfti hann á heildarendurskoðun og lífsstílsbreytingum að halda. Á sama hátt er ekki nóg að aðlaga hið línulega hagkerfi nútímans að loftslagsbreytingum, það dugir ekkert minna en gagnger endurskoðun og umbylting.

 

Þversögn stöðugleikans

Í loftslagsskýrslum, meðal annars loftslagsaðgerðaráætlun Íslands, eru yfirleitt nokkrar sviðsmyndir birtar, hvað gerist ef þetta er gert, hvað gerist ef svona er brugðist við og svo framvegis. Þessar sviðsmyndir eru bornar saman við ákveðna grunnsviðsmynd, sem ber á ensku hið gegnsæja heiti Business-as-usual, vanabundin viðskipti. Mér finnst snilldin í þessu hugtaki, Business-as-usual, vera hversdagsleikinn. Lífið gengur sinn vanagang, hjól atvinnulífsins snúast sinn vanasnúning. Business-as-usual sviðsmyndirnar eru þó allt annað en hversdagslegar því þær leiða mannkynið inn í algjörlega nýjan veruleik loftslagshamfara og neikvæða keðjuverkun hlýnunar. Snilldin í hugtakinu er hvernig „stöðugleiki“ í viðskiptaháttum veldur óstöðugleika í tilveru alls lífs á jörðinni. Hamfarahlýnun orsakast þannig af hversdegi sem bundinn er í vana.

 

Fórn eða framfarir

            Ég hef lengi velt því fyrir mér hvers vegna staðreyndin um loftslagsbreytingar af mannavöldum var, og er enn að einhverju leiti, svona merkilega umdeild. Vísindin gætu ekki verið skýrari og eru þar að auki auðskiljanleg. Við vitum að gróðurhúsalofttegundir fanga hita í andrúmsloftinu og við vitum hverjar þessar lofttegundir eru.

            Ég held að ein helsta andstaðan við róttækar loftslagsaðgerðir sé ekki skilningsleysi á vísindunum heldur óttinn við afleiðingar þeirra. Óttinn við afturfarir. Almennt viðhorf gagnvart loftslagsaðgerðum er að þær krefjist fórna á nútímaþægindum og lífsstíl.

            Fórnir, þannig eru loftslagsaðgerðir málaðar upp. Fórnir á ábyrgð einstaklingsins, eins og ég ræddi í síðasta pistli. Hættu að fljúga, hættu að borða kjöt, hættu að keyra, hættu að kaupa dót. Þegar það er orðað svona þá hljómar það vissulega ekki eins og lífsgæðaframfarir. Miklu frekar hljómar það eins og innilokað einsetulíf á megrunarkúr. Þar að auki er árangur loftslagsaðgerða bundinn við að allir stígi í takt og við trúum því einfaldlega ekki að allir gerist einsetumenn í megrun, sérstaklega þegar auglýsingar halda áfram að dæla út myndum af neytendum sem hafa tryggt sér enn meiri þægindi. Við óttumst að missa af kökunni á meðan aðrir éta hana. 

            En hvað græðum við á grænum umskiptum? Ég held að enginn haldi því fram að við lifum fullkomnu lífi í dag. Í veruleika Íslands er kvíði á skarpri uppleið, þunglyndi er landlægt, einmanaleiki eykst, íbúðir eru ekki lengur heimili heldur fjárfestingar, þriðji hver einstaklingur glímir við kulnun og morgunteppan nær frá Mosó niður á Grensásveg. Út fyrir Ísland er flóttamannakrísa, orkukrísa og stríð í Úkraínu. Pólarísering og ójöfnuður aukast, billjónamæringar heimsins stjórna dýfum á hlutabréfamörkuðum með tweetum einum saman, meira segja nasisminn er á uppleið og jú, loftslagsbreytingar í hinni miklu hröðun mannaldar ógna loftslagi og sjálfu lífríki jarðarinnar.

            Hvers virði er stöðugleikinn ef stöðugleikinn sökkar? Höfum við ekki trú á að betri veruleiki sé mögulegur? Það er kannski ósanngjarnt að velja eins og bland í poka það sem amar að nútímasamfélagi og smella því svona í eina málsgrein án þess að telja upp jákvæð atriði því til höfuðs en skilaboðin eru þessi: Annar veruleiki er mögulegur og ákjósanlegur. Við erum ekki komin að endastöð framfara og nú er bara að lifa lífinu eins og venjulega, Business-as-usual. Það þarf að tækla vandamál og ráðast í umbætur og sleppa tökunum á úreltum gildum. Það þarf stefnubreytingu, græn umskipti. Loftslagsaðgerðir krefjast ekki fórna heldur veita okkur tækifæri til að skera niður lífsstílssjúkdóma, þunglyndi, kvíða, óöryggi, misskiptingu, fordóma, kvenfyrirlitningu og mengun og auka í staðinn lífsgæði. Hætta að troða í okkur og fara í heildarátak áður en við springum.

 

Verg þjóðarhamingja

Á alþjóðavísu er rætt um að skipta mælikvarða vergrar landsframleiðslu og hagvaxtar út fyrir aðra velsældarkvarða. Ástæða þess er að verg landsframleiðsla er góður mælikvarði til að mæla útþenslu eða samdrátt á hagkerfi en segir okkur ekkert um aðra vísa lífsgæða, eða hvernig slíkri útþenslu var náð. Meiri framleiðsla, neysla og hærri meðallaun eru tekin til greina en ekki til að mynda misskipting auðs, hamingja eða heilsa, ofbeldi eða einmanaleiki. Auk þess mælir verg landsframleiðsla ekki umhverfisáhrif, sem hefur bein áhrif á líf framtíðar- og núlifandi kynslóða, tekur með öðrum orðum ekki skuldir umhverfisáhrifa með í reikninginn. Verg landsframleiðsla og hagvöxtur eru góðir kvarðar til að mæla veraldlegt ríkidæmi þjóðar en skortir margt annað. Hvort er markmið þjóða að verða ríkar eða sjálfbærar og hamingjusamar?

Bútan byrjaði að nýta velsældarkvarða árið 2008 og Nýja-Sjáland 2019. Markmið svokallaðra Velsældarfjárlaga Nýja-Sjálands er:

 

„að nota samfélags- og umhverfisvísa í bland við fjárhagslega og hagræna mælikvarða til að grundvalla fjárfestingar og styrktarákvarðanir ríkisstjórnarinnar“.

 

Eftirfarandi er svo úr loftslagsaðgerðaáætlun Íslands:

 

Hér á landi hefur staðið yfir viðamikil vinna við þróun velsældarmælikvarða í stað hefðbundinna mælikvarða um verga landsframleiðslu og hagvöxt. Nýju mælikvarðarnir ganga út á hagsæld og lífsgæði og þar er tekið tillit bæði til félagslegra þátta og umhverfisþátta. Markmiðið er að hverfa frá því að einblína eingöngu á hagvöxt, óháð því hvernig hann er tilkominn, og hanna þannig grunn að sjálfbæru hagkerfi.

 

Það er mjög jákvætt að þetta sé nefnt í áætluninni og vonandi að þessar áætlanir nái fram að ganga. Slíkar forsendubreytingar eru nauðsynlegt skref til að geta mælt raunverulegar framfarir grænna umskipta í stað þess að líta á umskiptin sem lífsstílsfórnir. Að horfa til lífsgæða í stað hagvaxtar væri til að mynda frumforsenda tilfærslu úr línulegu hagkerfi til hringrásarhagkerfis.

 

Kulnunarkynslóðin

            Kynslóðin sem nú er á þrítugs- og fertugsaldri, mín kynslóð, hefur verið kölluð kulnunarkynslóðin. Það er kynslóð sem ólst upp við þá heimsmynd að lífsskilyrði yrðu í jöfnum vexti í samhengi við vinnuframlag. Kynslóðin ól með sér öguð vinnubrögð og sjálfsbestun. En öryggið sem kynslóðinni var lofað kom aldrei og þrátt fyrir alla þessa vinnu og sjálfsbestun er hamfarahlýnun veruleiki, breytingar sem eru af svo miklu umfangi að við getum ekki skilið þær en birtast sem svipleiftur á fréttamiðlum, skógareldar, flóð, aurskriður. Veruleiki óöryggis og hamfarahlýnunar hafa sorfið burt framtíðina sem kulnunarkynslóðinni var lofað, ef bara við legðum nógu hart að okkur.

            Það er áskorun fyrir kynslóðina mína að horfast í augu við brostin loforð um þægilega framtíð, líkt og það er erfitt fyrir eldri kynslóðir að horfast í augu við að gildi vestrænna þjóðfélaga, gildi okkar, sköpuðu veruleika sem er að valda hruni vistkerfa heimsins. Auðveldara er að ríghalda í gömlu gildin og gömlu draumana. Stefnubreytingin sem samfélagið þarf að framkvæma er að brjótast úr hlekkjum gamalla hugmynda og hanna nýjan, betri veruleika. Við héldum að við værum á uppleið, í stöðugri framför en það kom í ljós að við stefndum til kulnunar og hamfarahlýnunar. Nú er að horfast í augu við það í stað þess að líta undan.

            Hvort erum við hræddari við, loftslagsbreytingar eða aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum? Það er erfitt að para kerfi nútímans við loftslagshamfarir, í huganum tengjum við ekki bráðnun sífrerans, aurskriðurnar á Seyðisfirði og flóðin í Þýskalandi saman við iðnaðarframleiðslu á kjöti, alþjóðageira millilandaflugs og línulegt hagkerfi, en það er samt veruleikinn. Í nýlegri grein talar Henry Alexander Henrysson um að siðferðisleg hegðun okkar kalli á einbeitta sjálfsgagnrýni á langanir okkar og þrár. Við óttumst hvað þessi sjálfsgagnrýni kann að leiða í ljós, og hvers hún krefst. Mistökin eru að þegar við gjóum augunum í spegilinn sjáum við píslarvott, en ekki brautryðjanda.

            Of algeng orðræða er að kalla framfarir í grænum umskiptum fórn, viðskipti sem valda óstöðugleika í vistkerfum jarðar stöðugleika, vöxt sem vænkar ekki endilega hag okkar  hagvöxt. Hið sanna er að Business-as-usual viðheldur veruleika kulnunarkynslóðarinnar og lofar enn verri framtíð.

            Hvenær látum við ofan í okkur þessa síðustu „wafer thin mint“ sem sprengir okkur? Okkar er valið, að halda áfram að troða í okkur, eins og herra Creosote eða þakka fyrir matinn, fara í átak og breyta algjörlega um lífsstíl. Það er ekki fórn heldur framfarir.